Að auðga Íran

Eftir Þuríði Árnadóttur, lækni og Íransfara í mars 2006 Greinin birtist í Morgunblaðinu 1.apr.

Nýlega fór hópur Íslendinga í frí til Íran. Leigubílstjóranum sem ók undirritaðri í flugrútuna fannst það nú hreint ekki góð hugmynd. Ég spurði hvort hann þekkti til í Íran. Það gerði hann reyndar ekki, en ef dæma mætti af fréttum... Hópurinn átti það eitt sameiginlegt að vera meðlimir í Vináttu og menningarfélagi Miðausturlanda(http://www.johannatravel.blogspot.com/).
Kosturinn við að ferðast í hóp á þessar slóðir er sá að þannig er frekar eftir manni tekið. Og mörg okkar viljum gjarnan að eftir okkur sé tekið sem staðföstum og viljugum ferðalöngum. Það kann að hljóma undarlega að í landi með yfir 70 milljónir íbúa veki lítill hópur erlendra ferðamanna athygli, en sú er einmitt raunin í Íran þessa dagana.
Þrátt fyrir að þetta sé eitt elsta og merkasta menningarsvæði heimsins er þar lítið um ferðamenn. Einungis ríflega tvær milljónir sóttu Írani heim í hitteðfyrra( sem jafngildir um 10 þúsund ferðamönnum á Íslandi), um ein milljón í fyrra og mikið ku vera um afpantanir í ár.
Allan tímann í Íran, en við heimsóttum þar marga helstu ferðamannastaði, urðum við aldrei vör við annan erlendan hóp. Alls staðar var eftir okkur tekið og blíðlegt, kurteist og vingjarnlegt fólk á förnum vegi spurði af áhuga hvaðan við værum og, ótrúlegt en satt, þakkaði okkur fyrir að koma til Íran. Þeir Íranir sem voru sjálfir að heimsækja fornar menningarslóðir virtust hafa allt eins mikinn áhuga á að taka myndir af okkur eins og af menningunni.
Ég kveikti á sjónvarpinu fyrstu þrjá dagana í Íran. Á BBC og CNN var stöðugt verið að sýna myndir af mótmælendum í Teheran og útskýra hvað Íranir væru erfiðir og þversum í "kjarnorkumálinu og til vandræða fyrir "alþjóðasamfélagið" og að kominn væri tími til að "málinu" yrði vísað til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ég leit ósjálfrátt út um gluggann til að fullvissa mig um að allt væri í lagi og ekki bólaði á öðru.

Við ferðuðumst á vegum íranskrar ferðaskrifstofu, ýmist með innanlandsflugi, eða í rútu og nutum frábærrar leiðsagnar íranskra leiðsögumanna sem virtust eiga svör við öllum okkar spurningum auk þess að vera yndislegar manneskjur. Allt skipulag var til fyrirmyndar og við vorum hugfangin af landi og þjóð, menningu og sögu, náttúrufegurð og skáldskap, mataræði og söluvarningi. Leiðin lá frá Teheran í norðri til Sjiraz í suðri og þaðan í rólegheitum aftur í norðurátt með viðkomu meðal annars í Yazd og Esfahan, um ægifagurt landslag, alla leið norður að Kaspíahafi. Þaðan héldum við svo aftur til Teheran þar sem við slöppuðum af á söfnum og tehúsum áður en haldið var heim á ný.
Sumir halda að Íranir séu kúguð þjóð. Mér virðast þeir upp til hópa vel menntaðir, kurteisir, gestrisnir, hlýlegir, klárir, skemmtilegir, forvitnir og síðast en ekki síst stoltir. Maður verður var við sterka þjóðerniskennd jafnvel við stutt viðkynni.
En hvað með svartklæddu konurnar með slæðurnar?Já, hvað með þær? Enginn spyr hvort svartklæddu mennirnir í Öryggisráðinu séu kúgaðir. Í mínum augum virðast þeir langtum einsleitari en konurnar í Íran.
Það er mikilvægt að kynna sér sögu Írans og samskipti þeirra við Vesturlönd á nýliðinni öld áður en maður tjáir sig um nútímann. Íranir hafa margir hverjir ákveðnar skoðanir á ráðamönnum á Vesturlöndum og lái þeim hver sem vill. En þeir gera skýran greinarmun á valdhöfum og venjulegu fólki, á fjölmiðlafólki og ferðafólki. Kona nokkur hafði orð á því við mig hvað það væri ánægjulegt að taka á móti ferðamönnum, hún vildi sjá fleiri ferðamenn en færri fréttamenn. Þannig fengju þeir, Íranir, sem ekki hafa tök á að fara utan, raunsannari mynd af vestrænum konum en þá sem birtist í bíómyndum og fjölmiðlum. Það virðist sem sagt koma sumum á óvart að við göngum ekki allar um dauðadrukknar á G-streng eins og stundum er gefið í skyn.

Vissulega er svolítið skrítið að klerkar ráði ríkjum í fjölmennu landi á okkar tímum. En saga Írans er önnur en saga okkar. Vissulega væri æskilegt að klæðaburður væri val hverrar manneskju. En það er í rauninni ekki okkar að hafa skoðanir á því í þessu tilfelli. Íranskar konur þurfa ekki erlenda aðstoð við að taka niður slæðuna. Ég fyrir mitt leyti efast allavega ekki um að þær eru fullfærar um það sjálfar, með sínu lagi og þegar heim hentar. Þegar heim er komið líður mér vel að hafa lagt mitt af mörkum við að auðga Íran. Að hafa slökkt á sjónvarpi og útvarpi, lokað dagblöðum, leitt hjá mér fotölur svartklæddu karlanna og farið á staðinn og keypt þar varning og þjónustu. Auðvitað komast Íranir af án okkar. Það hafa þeir gert í gegnum aldirnar. Hitt er víst að við verðum fátækari ef við neitum okkur um að sækja þá heim.